Fótbolti

Þjálfari Tékka verður á heimavelli á sunnudaginn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Brussel skrifar
Vrba Kann vel sig á Doosan-vellinum.
Vrba Kann vel sig á Doosan-vellinum. vísir/getty
Pavel Vrba, landsliðsliðsþjálfari Tékklands, snýr aftur á kunnuglegar slóðir þegar hans menn mæta Íslandi á Doosan-leikvangingum í Plzen á sunnudagskvöld. Vrba lét af störfum hjá Viktoria Plzen í desember í fyrra eftir fimm ára farsælt starf sem þjálfari liðsins.

Vrba vann á þessum tíma tvo meistaratitla með félaginu og einn bikarmeistaratitil. Liðið komst þar að auki tvívegis í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

„Ég hlakka auðvitað mikið til að koma til baka,“ sagði Vrba í viðtali á heimasíðu Knattspyrnusambands Evrópu. „Ég var þar í fimm frábær ár og ég vona að andrúmsloftið og stuðningurinn verði svipaður og hann var þegar ég var hjá Viktoria Plzen.“

Leikurinn er toppslagur A-riðils undankeppninnar en bæði lið eru ósigruð eftir þrjá leiki. „Það er sjaldgæft að landsleikir fari fram í Plzen en við vildum gera stuðningsmönnum þar greiða.“

Viktoria Plzen er á toppnum í tékknesku deildinni og á fimm fulltrúa í landsliðinu, auk þess sem miðjumaðurinn Vladimir Darida snýr aftur á sinn gamla heimavöll eftir að hafa farið til þýska liðsins Freiburg í sumar.

„Ég get ekki beðið eftir að koma til baka, eins og allir strákarnir frá Plzen,“ sagði Darida. „Við vitum að þetta verður sérstakt kvöld fyrir þjálfarann okkar og vonandi verður þetta sérstaklega eftirminnilegur leikur.“

Tomas Rosicky, stórstjarna Arsenal, hefur aldrei spilað áður í borginni og er spenntur fyrir leiknum. „Ég er forvitinn um hvernig stemning skapast á vellinum,“ sagði hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×