Sport

Murray ætlar sér að verja titilinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Murray með grínistanum Ricky Gervais.
Murray með grínistanum Ricky Gervais. Vísir/Getty
Skotinn Andy Murray segist njóta þess að spila á Wimbledon-mótinu í tennis þó svo að miklar kröfur séu gerðar til hans. Í fyrra varð hann fyrsti Bretinn í 77 ár til að fagna sigri í einliðaleik karla á mótinu en þrátt fyrir að meiðsli hafi gert honum erfitt fyrir undanfarna mánuði ætli hann sér alla leið aftur nú.

„Ég nýt þess að vera taugaóstyrkur og óttast ekki þá tilfinningu. Mér finnst að ég nái alltaf mínu besta fram þegar pressan er sem mest á mér,“ sagði hann en Murray hefur ekki tapað lotu á mótinu til þessa og unnið alls sextán leiki í röð á Wimbledon. Þó eru flestir sterkustu tenniskappar heims, með þá Novak Djokovic, Rafael Nadal og Roger Federer fremsta í flokki, enn meðal keppenda.

Mun óvæntari tíðindi hafa átt sér stað í einliðaleik kvenna en efstu tvær konur heimslistans – hin bandaríska Serena Williams og Li Na frá Kína – eru báðar fallnar úr leik.

Sýnt verður beint frá undanúrslitum og úrslitum karla og kvenna á Stöð 2 Sport síðar í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×