Núri al Maliki, forseti Íraks, segir að herskáir íslamistar geti þakkað sigurgöngu sína síðustu daga samsæri meðal hers og lögreglu, sem hafi flúið átök í borgunum Mosul og Tikrit í staðinn fyrir að standa vörð um borgirnar.
Hann segir að refsa eigi þeim sem flúðu en heitir því að nú verði taflinu snúið við: „Í dag er mikilvægast að við erum að vinna að því að leysa vandann,“ sagði hann.
„Við erum að vinna að undirbúningi og því að fá nýjan liðsafla í hersveitirnar sem sjá um að rýma Nineveh-hérað og hrekja þessa hryðjuverkamenn á brott,“ sagði Al Maliki.
Uppreisnarmenn úr samtökunum Íslamskt ríki í Írak og Austurlöndum nær, eða ISIS, hafa á síðustu dögum náð borgunum Mosul og Tikrit á sitt vald. Mosul er næststærsta borg landsins, höfuðborg Nineveh-héraðs í norðurhluta þess, en Tikrit er mun sunnar og aðeins í 130 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Bagdad.
Liðsmenn samtakanna hafa náð stjórnarbyggingum á sitt vald, hrakið burt her og lögreglu og hertekið herbifreiðar og annan búnað, en almennir borgarar hafa flúið í stórum stíl.
Talið er að allt að hálf milljón manna hafi forðað sér frá Mosul, sem féll í hendur uppreisnarmanna aðfaranótt þriðjudags. Fjöldi fólks hefur einnig flúið frá borginni Tikrit, en hún virðist hafa verið komin undir stjórn uppreisnarmanna í gær eftir nokkur átök í borginni framan af degi.
Athíl al Núnajaifi, héraðsstjóri í Mosul, var flúinn til borgarinnar Abril, sem er höfuðstaður sjálfstjórnarsvæðis Kúrda í norðanverðu Írak.
Hann sagðist bjartsýnn á að Mosul geti „komist aftur á lappir og losað sig við alla utanaðkomandi“, að því er hann sagði við fréttamenn í Abril í gær.
Hann sagði stjórnvöld vinna að því að fá íbúa til þess að mynda vopnaðar sveitir sem myndu gegna hlutverki við að ná borginni aftur.
Uppreisnarsveitir ISIS náðu fyrr á árinu borgunum Ramadi og Falluja, skammt vestur af Bagdad, á sitt vald. Stjórnarhernum hefur enn ekki tekist að hrekja þær þaðan.
Al Maliki forseti hvatti íbúa í Nineveh til að gefast ekki upp, en búast við að átökin geti staðið í einhvern tíma. „Við stöndum með ykkur, ríkið stendur með ykkur, herinn stendur með ykkur. Jafnvel þótt átökin verði langvarandi, þá munum við ekki bregðast ykkur.“

