Skoðun

Nor­rænn þjóð­fundur ungs fólks

Eygló Harðardóttir skrifar

Hvernig vil ég að framtíð mín verði? Þessari spennandi og áleitnu spurningu munu norræn ungmenni á aldrinum 18-25 ára svara á Þjóðfundi norrænna ungmenna sem fram fer í dag, 5. apríl, kl. 9-17 á Hilton Nordica hóteli. Yfirskrift fundarins er „demokrati og kreativitet“. Fundurinn er eitt af verkefnunum í formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014 og er á vegum NORDBUK, barna- og ungmennanefndar Norrænu ráðherranefndarinnar. Alls eru um eitt hundrað þátttakendur skráðir frá öllum Norðurlöndunum til fundarins.



Lýðræðisvitund og þátttaka

Ein af áskorunum í norrænum samfélögum er að auka lýðræðisvitund og þátttöku ungs fólks. Mikilvægt er að beita ólíkum leiðum til þess að fá sem flesta að borðinu og taka þátt. Á Þjóðfundi norrænna ungmenna gefst ungu fólki tækifæri til að koma saman og ræða um hvernig þau vilja sjá framtíð sína. Notast verður við fundaraðferð sem beitt var á Þjóðfundinum hér á Íslandi árið 2009. Allir fá að koma sínum sjónarmiðum og hugmyndum á framfæri og skipta skoðanir allra þátttakenda jafn miklu máli.



Framtíðarkynslóðin talar

Það verða hvorki langar ræður eða fyrirlestrar haldnir á fundinum heldur munu þátttakendur sjálfir vinna hver með öðrum til að kanna og tjá drauma sína um framtíðina, samfélagið, jörðina og náttúruna, vinnu og fjölskyldu, menningu og atvinnuvegi. Það er undir þátttakendum komið hvaða mál fá mesta áherslu og hvaða lausnum og hugmyndum unga fólkið vill koma á framfæri um betri framtíð. Hér er því um að ræða einstakt tækifæri fyrir kynslóðir framtíðarinnar að láta í sér heyra.



Hverjir hlusta?

Niðurstöðum fundarins verður komið á framfæri við Norrænu ráðherranefndina og norrænu ríkisstjórnirnar. Þær verða einnig sendar til samtaka ungs fólks og annarra sem vilja nýta þær til samfélagsrýni og umbóta. Ég hlakka til að sjá niðurstöður Þjóðfundar norrænna ungmenna og hef fulla trú á því að þær skili okkur betri framtíð.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×