Körfubolti

Hardy fyrsta konan til að skora meira en 40 stig í bikarúrslitum

Lele Hardy var sátt í leikslok eftir sögulegan úrslitaleik.
Lele Hardy var sátt í leikslok eftir sögulegan úrslitaleik. Vísir/Daníel
Lele Hardy, hinn frábæri bandaríski leikmaður Hauka, setti met í bæði stigaskori og framlagi þegar Haukakonur unnu Powerade-bikarinn eftir 78-70 sigur á Snæfelli í Höllinni.

Hardy var með 44 stig, 14 fráköst og 7 stolna bolta en framlag hennar var 48. Hardy bætti stigamet Kieraah Marlow frá 2012 (37 stig) og framlagsmet Heather Corby frá 2001 (46).

„Með fullri virðingu fyrir þjálfurum og leikmönnum í deildinni þá er Lele Hardy bara of góð fyrir íslenska körfuboltann. Hún væri með betri Könum í karladeildinni,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, við Daníel Rúnarsson, blaðamann Vísis og Fréttablaðsins, eftir leik.

Haukaliðið endaði þarna fimmtán leikja sigurgöngu Snæfellsliðsins í deild og bikar og sá til þess að Snæfellskonum tókst ekki að vinna sinn annan titil á innan við viku en þær urðu deildarmeistarar helgina á undan.

„Það gekk ekkert hjá mér í fyrsta leikhluta. En ég minnti sjálfa mig bara á það að ég væri góð skytta og lagaði einbeitinguna,“ sagði Hardy við Daníel eftir leik.

Hardy var „bara“ með 7 stig, 4 fráköst og 25 prósenta skotnýtingu eftir fyrsta leikhlutann og Haukarnir tíu stigum undir, 11-21. Síðustu þrjá leikhlutana var Hardy hins vegar með 37 stig, 10 fráköst og 71 prósenta skotnýtingu en Haukaliðið vann þá 67-49.

„Ég held að enginn geti mótmælt því að hún sé besti leikmaður sem hefur spilað í þessari deild. Hún er líka frábær karakter innan sem utan vallar. Hún spilaði stórkostlega í dag,“ sagði Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka.

Óskar Ófeigur Jónsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×