Körfubolti

Spilaði með Noah, Horford og Parsons í skóla en er núna kominn í Fjölni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonathan Mitchell í leik með Florida Gators.
Jonathan Mitchell í leik með Florida Gators. Vísir/Getty
Fjölnismenn eru búnir að finna eftirmann Daron Lee Sims en karfan.is segir frá því að Körfuknattleiksdeild Fjölnis hafi gengið frá samningi við bandaríska miðherjann Jonathan Mitchell.

Jonathan Mitchell er 27 ára gamall, 201 sentímetrar á hæð og um 111 kíló á þyngd. Hann kemur frá Mount Vernon í New York ríki en spilaði háskólabolta með bæði Florida Gators og Rutgers.

Jonathan Mitchell spilaði síðast með ungverska liðinu Falco KC á síðustu leiktíð þar sem hann var með 11,7 stig og 4,0 fráköst að meðaltali á 20,7 mínútum í leik en hann nýtti þar 65,3 prósent skota sinna. Tímabilið á undan lék hann í Grikklandi.

Jonathan Mitchell spilaði með tveimur skólum á háskólaferli sínum, fyrst tvö tímabil með Florida Gators og svo tvö tímabil með Rutgers-háskólanum þar sem hann kláraði vorið 2011.

Mitchell fékk ekki mikið að spreyta sig hjá Florida Gators en fyrra árið léku með liðinu núverandi NBA-stjörnurnar Joakim Noah (Chicago Bulls), Al Horford (Atlanta Hawks) og Corey Brewer (Houston Rockets). Á því síðara var Chandler Parsons (Dallas Mavericks) síðan á sínu fyrsta ári.

Florida Gators varð bandarískur háskólameistari á fyrra ári Jonathan Mitchell en hann spilaði ekkert á úrslitahelginni. Hann var með 1,4 stig á 6,2 mínútum í leik fyrri veturinn og 3,1 stig á 11,4 mínútum í leik seinni veturinn.

Hjá Rutgers var Mitchell hinsvegar kominn í miklu stærra hlutverk, skoraði 11,8 stig og tók 6,1 fráköst í leik fyrri veturinn og á þeim síðari var hann með 14,4 stig og 5,6 fráköst að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×