Körfubolti

Elvar valinn besti nýliði vikunnar í NEC-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson.
Elvar Már Friðriksson. Vísir/Getty
Elvar Már Friðriksson er búinn að vinna sín fyrstu einstaklingsverðlaun með LIU Brooklyn í bandaríska háskólakörfuboltanum en hann var kosinn besti nýliði vikunnar í NEC-deildinni (Northeast Conference).

Elvar Már er annar leikmaður LIU Brooklyn sem fær þessa útnefningu á tímabilinu því liðsfélagi hans Nura Zanna var valinn fyrir vikuna sem endaði 24. nóvember.

Elvar Már fór fyrir liði LIU Brooklyn í vikunni, í tveimur fyrstu sigurleikjum liðsins á tímabilinu en hann var með 13,5 stig og 6,0 stoðsendingar að meðaltali í leik í vikunni.

Elvar Már var einnig með 5,0 fráköst og 2,0 stolna bolta að meðaltali í leik en hann hitti úr 66,7 prósent skota sinna utan af velli og setti niður helming þriggja stiga skota sinna.

Besti leikur Elvars Más í vikunni var í sigrinum á Maine þar sem hann var með 19 stig og 7 stoðsendingar.

Elvar Már hefur skorað 10,4 stig að meðaltali í sínum fyrstu leikjum með LIU Brooklyn og þá er hann í öðru sæti í stoðsendingum í NEC-deildinni með 4,8 að meðaltali í leik.

Þetta er flott viðurkenning fyrir Elvar Már sem hefur verið aðalleikstjórnandi LIU Brooklyn frá fyrsta leik.


Tengdar fréttir

Elvar með flottan leik í fyrsta sigri LIU Brooklyn

Elvar Már Friðriksson átti mjög flottan leik í nótt þegar lið hans og Martins Hermannssonar, LIU Brooklyn, vann sinn fyrsta leik á tímabilinu í bandaríska háskólaboltanum.

Naumt tap hjá Elvari og Martin

LIU Brooklyn Blackbirds varð að sætta sig við fimmta tapið í jafn mörgum leikjum í bandaríska háskóla körfuboltanum þegar liðið tapaði á heimavelli fyrir Lehigh Mountain Hawks 80-76.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×