„Afskipti Hönnu Birnu þáverandi dómsmálaráðherra af lögreglurannsókn á mögulegri brotlegri háttsemi hjá aðstoðarmanni hennar og yfirlýsingar núverandi skúffudómsmálaráðherra um hvað hann telur vera eðlilega ákvörðun í þessu nýja lekamáli eru sláandi dæmi um að ráðherrar núverandi ríkisstjórnar skilja ekki þrískiptingu valds og eru vanhæfir til að fara með það vald sem þau komust yfir með loforðum sem nú þegar er sannað að voru lygar.“
Samkeppniseftirlitið hefur farið fram á að opinber rannsókn verði gerð á því hvaðan og hvernig trúnaðarupplýsingum um kæru Samkeppniseftirlitsins til sérstaks saksóknara á hendur starfsmönnum Eimskips og Samskipa var lekið til Kastljóss. Sigmundur Davíð sagði í samtali við Eyjuna síðasta föstudag að mikilvægt væri að líta til fyrri fordæma í því máli, þ.e meintum leka úr innanríkisráðuneytinu.
Birgitta gagnrýnir þær yfirlýsingar hans og segir þrískiptingu valdsins ekki virta. Því þurfi að skerpa á þessari skiptingu og þeim viðurlögum sem þurfa að liggja til hliðsjónar ef farið er yfir þá múra.
„Þarf annað hrun til að fólk átti sig á að það er ekki hægt að endurreisa úr fúafjölum og kviksandi sérhagsmuna. Róttækar breytingar eru nauðsynlegar ekki bara hjá yfirvöldum heldur í kerfinu öllu. Það þarf að fara í átak sem krefst mikillar vinnu við að smíða nýtt kerfi sem skaðaminkar svona siðleysi og spillingu sem flæðir um allt,“ skrifar Birgitta.
„Því miður virðast flestir vera orðnir ónæmir fyrir þessari landlægu spillingu mafíu Íslands,“ segir hún að lokum en færslu hennar í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.