Körfubolti

Einar: Alltaf sami aumingjaskapurinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Samsett mynd
Einar Bollason, einn þeirra sem fara fyrir söfnun fyrir íslenska körfuboltalandsliðið, segir söfnunina lélegan vitnisburð um stefnu ríkisvalda í málefnum afreksíþrótta.

Íslenska landsliðið í körfubolta tryggði sér á dögunum keppnisrétt á EM í körfubolta í fyrsta sinn í sögunni. Svokölluð körfuboltafjölskylda hefur einsett sér að safna 6-7 milljónum fyrir þeim kostnaði sem fellur á KKÍ vegna þátttöku landsliðsins á EM.

„Hingað er ég ekki kominn til að væla en það er grín hversu máttlaus afrekssjóður ÍSÍ er,“ sagði Einar í Bylgjunni í morgun en viðtalið má heyra í heild sinni hér fyrir ofan.

„Það er alveg sama ríkisstjórn er við völd eða hvaða menn koma inn á þing - alltaf er sami aumingjaskapurinn.“

„Einn góður maður sagði svo við mig að það væri heppni afrekssjóðsins að handboltalandsliðið hafi ekki komist inn á HM [í Katar] því þá væri hægt að láta körfubolandsliðið fá einhvern pening. Þetta er auðvitað ekki nógu gott og ég vona að menn fari að sjá að sér.“

Hann segir að átakið hafi byrjað strax í sigurvímunni í Laugardalshöll eftir að ljóst varð að Ísland hefði unnið sér sæti í lokakeppni EM. Hugmynd sem hafi verið notuð í KR í mörg ár hafi verið gripin á lofti en þeir sem vilja styrkja átakið láta gjaldfæra 2000-5000 krónur á kreditkortið sitt mánaðarlega í tíu mánuði.

„Þetta er ekki mikill peningur fyrir hvern og einn en munar afar miklu,“ sagði Einar og bætir við að undirtektirnar strax í upphafi hafi verið stórgóðar. „Þetta er í raun brandari. Síminn stoppar ekki.“


Tengdar fréttir

Utan vallar: Takk, Óli Rafns

Karlalandsliðið í körfubolta braut blað í íslenskri íþróttasögu á miðvikudagskvöldið þegar það komst á EM. Fyrrverandi forseti ÍSÍ á ekki lítinn þátt í því.

Þessar þjóðir verða með Íslandi á EM

Ísland verður meðal 24 þjóða sem keppa á Evrópumótinu í körfubolta á næsta ári en íslenska liðið verður meðal þátttakenda í fyrsta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×