Innlent

Gosið heldur sínu striki: Gufubólstrar rísa 20-30 metra til himins

Hjörtur Hjartarson skrifar
Ekkert lát er á gosinu í Holuhrauni.
Ekkert lát er á gosinu í Holuhrauni. Mynd/Auðunn Níelsson
Hraunstraumurinn í eldgosinu í Holuhrauni hefur nú náð í meginfarveg Jökulsár á Fjöllum og stíga gufubólstrar þar nú upp. Vísindamaður á svæðinu segir þó litlar líkur á að farvegur fljótsins breytist mikið við það. Gangurinn í gosinu er með svipuðum hætti og í gær.

„Þær helstu breytingar sem hafa orðið er það að hraunið hefur nú farið ofan í farveg Jökulsár á Fjöllum og er í þann mund að fara ofan í meginkvíslina á ánni. Við það verða talsverðar gufumyndanir. Vatnið úr ánni gufar upp vegna hitans frá hrauninu. Þá verða talsverðir gufubólstrar sem stíga upp 20 – 30 metra, eitthvað svoleiðis,“ sagði Þorvaldur Þórðarson, eldfjallasérfræðingur sem er við eldstöðvarnar. Hann segir annars allt með kyrrum kjörum á svæðinu.

„Gangurinn í gosinu er mjög svipaður því sem hefur verið undanfarna tvo daga. Aðalvirknin er í norðursprungunni og lítil virkni í þessari suðursprungu sem myndaðist fyrir tveimur dögum. Miðgígurinn á norðursprungunni hann gýs að venju mest og er með myndarlega kvikustróka sem eru í sömu hæð og í gær eða  svona á bilinu 50-100 metra,“ útskýrði hann í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag. Syðsti gígurinn er einnig virkur að sögn Þorvalds. Virknin þar er stöðug. „Þannig að framleiðinin í gosinu er þetta svipuð, sirka 100 rúmmetra á sekúndu. Gæti verið eitthvað aðeins hærra. Hraunið heldur sinni framrás, hún er nokkuð stöðug, fór upp í 100 metra á klukkustund í gær og virðist vera á svipuðu róli í augnablikinu.“

Gosið heldur því sínu striki samkvæmt eldfjallasérfræðingnum en grannt er fylgst með gangi mála.

Hér að neðan má sjá stórkostlegt myndband sem Jón Gústafsson tók af gosinu á dögunum.

Volcano at night - Iceland September 4 2014 from Jon Gustafsson on Vimeo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×