Körfubolti

Hannes: Skref í átt að því að skrifa nýjan og stóran kafla í íslenskri íþróttasögu

Óskar Ófeigur Jónsson í London skrifar
Formaðurinn bilaðist af gleði í leikslok.
Formaðurinn bilaðist af gleði í leikslok. mynd/kkí/stefán borgþórsson
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, upplifði eins og strákarnir í körfuboltalandsliðinu mikinn tilfinningarússibana í kvöld þegar íslenska liðið vann 71-69 sigur á Bretum í London og tryggði sér annað sætið í riðlinum og mjög líklega sæti á EM.

„Þetta er eiginlega bara ólýsanleg tilfinning því það er svo mikil vinna að baki þessu og hjá svo mörgum. Það eiga svo margir þátt í þessu en ég vil ítreka það að það er ekkert öruggt ennþá að við séum komnir inn á Eurobasket," sagði Hannes en sex af sjö liðunum sem lenda í öðru sæti í riðlinum tryggja sér þátttökurétt á EM á næsta ári.

„Dagurinn í dag er samt svo sannarlega stór dagur í íslenskum körfubolta. Við erum á góðri leið með að fara á Eurobasket. Það er ótrúlegt að þegar ég fer sem stjórnarmaður á stjórnarfund FIBA Europe 8. september næstkomandi, þar sem verður ákveðið hvar Eurobasket verður, þá verð ég aðeins að hafa í huga hvar Ísland verður að spila þarna," sagði Hannes léttur.

„Þetta er mikið afrek en það er ennþá einn leikur eftir. Það þarf samt einstaka óheppni ef við förum ekki inn á Eurobasket," sagði Hannes.

„Eins og ég sagði í byrjun þá er þetta vinna mjög marga aðila sem hafa komið að afreksmálum og íslenskum körfubolta heima. Þetta er stór dagur fyrir alla sem hafa komið nálægt íslenskum körfubolta frá upphafi," sagði Hannes.

Íslenska liðið var tíu stigum undir í hálfleik en hvernig leið formanninum í hálfleik?

„Ég viðurkenni það að ég var pínu hræddur. Ég hafði trú á þeim en ég var samt að hugsa: Nei, ekki erum við að glutra þessu niður. Ég vildi ekki trúa því og strákarnir höfðu líka trúna eins og þeir sýndu. Við Íslendingarnir sem vorum með liðinu í London höfðum trúna með þeim og þetta tókst," sagði Hannes sem hefur haft í nægu að snúast eftir leikinn að taka við hamingjuóskum.

„Kveðjurnar sem við erum að fá heiman frá gleðja mig sem formann sambandsins og okkur í sambandinu. Við erum að fá svo mikið af kveðjum frá fullt af fólki úr íþróttahreyfingunni og fólki heima á Íslandi. Það hefur varla stoppað síminn og þetta sýnir að íslenskur körfubolti er á réttri leið og við vorum að stíga stórt skref í átt að því að skrifa nýjan og stóran kafla í íslenskri íþróttasögu," sagði Hannes.


Tengdar fréttir

Leik lokið: Bretland - Ísland 69-71 | Strákarnir eru á leiðinni á EM

Íslenska körfuboltalandsliðið er á leiðinni á EM eftir frábæran 71-69 endurkomusigur á Bretum í Koparkassanum í London í kvöld. Íslenska liðið var tíu stigum undir í hálfleik en gafst ekki upp og tryggði sér sigurinn með stórkostlegum seinni hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×