Fótbolti

ÍA vann toppslaginn í Breiðholti

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Garðar tryggði mikilvæg stig
Garðar tryggði mikilvæg stig vísir/daníel
ÍA lagði Leikni á útivelli 1-0 í uppgjöri toppliða 1. deildar karla í fótbolta. ÍA steig þar stórt skref í að tryggja sæti sitt í Pepsí deildinni á næstu leiktíð.

Garðar Gunnlaugsson skoraði sigurmarkið í uppbótartíma þegar allt benti til þess að leikurinn yrði markalaus.

ÍA er þar með komið með 36 stig en Leiknir er sem fyrr á toppnum með 40 stig og á sæti í Pepsí deildinni svo gott sem víst þrátt fyrir tapið.

HK er í þriðja sæti með 29 stig þegar fjórar umferðir eru eftir en HK gerði markalaust jafntefli við Þrótt í Kópavogi í dag. Þróttur er í fjórða sæti með 28 stig.

Manni færri tókst KA að ná jafntefli gegn KV á KR-velli en Vesturbæingar komust tvisvar yfir í leiknum. KV er í næst neðsta sæti með 18 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti í deildinni en KA er með 26 stig um miðja deild.

BÍ/Bolungarvík vann mikilvægan 2-1 sigur á tíu Selfyssingum á heimavelli en Selfoss missti mann af leikvelli á 26. mínútu. BÍ/Bolungarvík lyfti sér upp í 8. sæti deildarinnar með 24 stig með sigrinum en Selfoss er í 10. sæti með 22 stig.

Að lokum gerðu Grindavík og Haukar 1-1 jafntefli í Grindavík en bæði lið eru enn í fallhættu. Haukar eru með 24 stig en Grindavík 23.

Seinna í dag mætast Víkingur Ólafsvík og Tindastóll á Sauðárkróki en vinni Víkingur fer liðið upp í þriðja sætið og 31 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×