Körfubolti

Bosníumenn án síns besta manns í Höllinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mirza Teletovic.
Mirza Teletovic. Vísir/Getty
NBA-leikmaðurinn Mirza Teletovic, stigahæsti leikmaður undankeppni EM, verður ekki með bosníska landsliðinu í leiknum á móti Íslandi í Laugardalshöllinni á miðvikudag. Karfan.is hefur það eftir vefsíðunni Sportsport.ba að Mirza Teletovic komi ekki með til Íslands af persónulegum ástæðum en Bosníumenn hafa þegar tryggt sér sæti á EM.

„Strákarnir hafa þegar sýnt og sannað gæðin í okkar liði og ég trúi því að þeir komi ósigraðir heim frá Íslandi,“ segir Teletovic í viðtalinu við Sportsport.ba en hann notaði einnig tækifærið og bað um frið frá fjölmiðlum til þess að sinna sínum persónulegu málum.  

Mirza Teletovic hefur verið frábær með Bosníumönnum í undankeppninni en hann hefur skorað 26,3 stig, tekið 6,7 fráköst og gefið 2,3 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann er einnig sá sem hefur skorað flestar þriggja stiga körfur eða 3,3 að meðaltali í leik.

Þetta eru góðar fréttir fyrir íslenska landsliðið sem tryggir sér endanlega sæti á EM með sigri. Teletovic skoraði 29 stig og tók 12 fráköst í fyrri leik liðanna út í Bosníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×