Körfubolti

Haukur var með hæsta framlagið í öllum leikjum gærdagsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson.
Haukur Helgi Pálsson. Vísir/Vilhelm
Haukur Helgi Pálsson átti frábæran leik þegar Ísland hóf undankeppni EM í gær með þrettán stiga sigri á Bretum í Laugardalshöllinni, 83-70. Samkvæmt tölfræðinni stóð líka enginn leikmaður sig betur í fyrstu umferðinni en tólf leikir fóru fram í gær.

Haukur Helgi var með 24 stig, 9 fráköst, 4 stoðsendingar, 3 stolna bolta og 1 varið skot í sigrinum á Bretum en hann hitti úr 9 af 14 skotum sínum í leiknum og tapaði boltanum bara einu sinni á 37 mínútum.

Haukur Helgi fékk framlagseinkunn upp á 35 sem var þremur stigum hærri en næstu menn sem voru Aliaksandr Pustahvar frá Hvíta-Rússlandi og Omri Casspi frá Ísrael.  Það er hægt að sjá frétt um bestu menn gærdagsins á fibaeurope.com með því að smella hér.

Haukur Helgi gekk frá samningi við sænska úrvalsdeildarliðið LF Basket aðeins nokkrum dögum fyrir leikinn og Svíarnir eru örugglega hæstánægðir með nýja leikmanninn sinn sem hefur eytt síðustu árum á Spáni.

Haukur Helgi gaf tóninn strax í byrjun leiksins því hann skoraði sjö af fyrstu tíu stigum íslenska liðsins í leiknum. Haukur Helgi var líka mjög öflugur á lokakafla leiksins þegar strákarnir lönduðu mjög mikilvægum sigri.

Mikilvægi Hauks Helga sést líka á því að íslenska liðið tapaði með 10 stigum þær þrjár mínútur sem hann sat á bekknum en vann með 23 stigum þegar Haukur var inn á vellinum.

Hæsta framlagið í leikjunum í undankeppni EM í gær:

1. Haukur Helgi Pálsson, Íslandi 35

2. Aliaksandr Pustahvar, Hvíta-Rússlandi 32

3. Omri Casspi, Ísrael 32

4. Titus Nicoara, Rúmeníu  26

4. Rasid Mahalbasic, Austurríki 26

6. Akos Keller, Ungverjalandi 25

6. Vlad Moldoveanu, Rúmeníu  25

8. Zaza Pachulia, Georgíu 23

9. Gal Mekel, Ísrael  22

9. Axel Hervelle, Belgíu  22


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×