Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, segir í samtali við Vísi að grennslast hafi verið fyrir um tvo göngumenn á svæðinu. Um er að ræða Bandaríkjamenn sem dvöldu í skálanum Botni við Suðurárbotna, um 50 kílómetra norðan við Bárðarbungu. Þeir hafi verið upplýstir um aðstæður en engu að síður ætlað að ganga inn í Bárðardal í dag.
Kristján Kristjánsson, yfirlögregluþjónn á Húsavík, ítrekar í samtali við Vísi að svæðið sé lokað fólki hvort sem um er að ræða akandi, gangandi eða hjólandi. Hins vegar sé erfitt að hefta för fótgangandi fólks. Aðspurður hvort komið hefðu upp tilfelli þar sem akandi hefðu ekki virt lokun vega segist Kristján það ekki hafa komið upp.

Ólöf segir að búið sé að senda sms-skilaboð í farsíma fólks sem talið sé á svæðinu. Mikið hafi verið um göngufólk á svæðinu í sumar og alls ekki víst að búið sé að ná til allra. Vel geti verið gönguhópar á svæðinu en upplýsingum um skjálftavirknina og fylgjandi hættu hafi verið komið í skála á svæðinu.
Vegi F88 hefur verið lokað að fullu og vegi F910 að hluta. Hér til hliðar má sjá kort Vegagerðarinnar af þeim vegum sem um ræðir og svæðið norðan Vatnajökuls þar sem lokað er fyrir alla umferð. Svæðið er merkt skáletrað/svart.
Smellið á kortið til að sjá stærri útgáfu.