Körfubolti

Jón Arnór mættur til London: Sumir segja að ég sé "glory hunter“

Óskar Ófeigur Jónsson í London skrifar
Jón Arnór Stefánsson á æfingu með íslenska landsliðinu á dögunum.
Jón Arnór Stefánsson á æfingu með íslenska landsliðinu á dögunum. Vísir/Daníel
Jón Arnór Stefánsson er lentur í London og búinn að hitta félaga sína í karlalandsliðinu í körfubolta en Jón Arnór ætlar að spila leikinn mikilvæga í Koparkassanum annað kvöld en með sigri fer íslenska liðið langleiðina með því að tryggja sér sæti á EM.

„Sumir segja „glory hunter" og það er bara þannig. Þetta er lið sem ég er búinn að spila með síðan árið 2000 og loksins er möguleiki á að gera eitthvað. Það kom líka svolítið á óvart hvað við vorum miklu betri en Bretarnir og við unnum þannig leik með stærri mun en ég hafði haldið," sagði Jón Arnór sem ákvað að skella sér í slaginn. Hann var ekki með þegar liðið vann 13 stiga sigur á Bretlandi í Laugardalshöllinni.

„Það kviknaði á gamla keppnismanninum og ég varð bara að taka þátt í þessu,"  sagði Jón Arnór en hann tók þessa ákvörðun eftir hádegismat með konunni.

„Við sátum saman í sólinni eftir að hafa tekið saman hádegismat tveimur dögum fyrir Bosníuleikinn. Þá ákvað ég bara að taka slaginn og byrja allavega á Bretaleiknum. Svo eigum við Bosníu heima og við eigum möguleika á því að vinna þá heima á Íslandi. Það getur vel verið að ég taki þann leik líka," sagði Jón Arnór en Ísland fær Bosníu í heimsókn í Höllina eftir rúma viku.

Jón Arnór er enn án samnings og tekur því mikla áhættu enda gætu meiðsli í þessum leik kostað hann síðasta flotta samninginn.

„Vonandi verð ég búinn að semja fyrir Bosníuleikinn en áhættusamast er að spila á morgun á móti Bretum. Ég setti hlutina smá í samhengi og það að komast inn á Evrópumót er miklu nær en ég hafði haldið. Ég tek bara sjensinn," sagði Jón Arnór en það verður rætt nánar við hann í Fréttablaðinu á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×