„Við erum búin að taka einn leik og það gekk nú alveg ágætlega,“ segja Berglind og Kristrún, tveir keppendur sem fréttastofa náði tali af. Þær segjast ekki hafa búist við því að það væri jafn erfitt að hreyfa sig í drullunni og raun ber vitni. Þá hafi þær orðið fyrir barðinu á einhverjum tuddaskap í fyrsta leik. „Við bara reyndum að hefna á móti,“ bæta þær við léttar.
Búningar keppenda spila stóran þátt í mótinu, en í dag mátti meðal annars sjá jólasveina, karlakór og ungabörn. Útsláttarkeppnin hefst svo á morgun. Að henni lokinni fer fram verðlaunaafhending þar sem meðal annars eru veitt verðlaun fyrir leiðinlegasta og drullugasta leikmanninn.
„Allir eru myljandi hressir hérna eins og alltaf,“ segir Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, einn skipuleggjenda. „Mýrin hefur einhvern veginn græðandi áhrif á sálartetrið og ég hef ennþá ekki hitt mann í vondu skapi hérna í drullunni.“


