Ólafur Ragnar Grímsson forseti hefur sent samúðarkveðjur til Vilhjálms Alexanders Hollandskonungs og Yang di-Pertuan Agong, konungs Malasíu, vegna fólksins sem fórst í malasísku farþegaþotunni MH17 í Úkraínu í síðustu viku.
Í tilkynningu frá forsetanum segir að hin skelfilegu örlög vélarinnar hafi vakið sorg og samúð um allan heim. Hugur og bænir forsetans og íslensku þjóðarinnar séu hjá fjölskyldum þeirra sem létu lífið og að alþjóðasamfélagið þurfi að bregðast við með „nauðsynlegum aðgerðum.“

