Fótbolti

„Komið fram við Suarez eins og morðingja“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Suarez eftir atvikið umdeilda í síðasta mánuði.
Suarez eftir atvikið umdeilda í síðasta mánuði. Vísir/Getty
Iago Aspas, fyrrum leikmaður Liverpool og samherji Luis Suarez, segir að Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, komi fram við þann síðarnefnda eins og morðingja.

Suarez er nú að taka út fjögurra mánaða bann fyrir að bíta Giorgio Chiellini í leik Úrúgvæ og Ítalíu á HM í Brasilíu þann 24. júní. Á þeim tíma má hann engin afskipti hafa af knattspyrnu.

Enn fremur þarf Suarez að taka út níu leikja bann með landsliði Úrúgvæ en honum var þó frjálst að semja við Barcelona eftir að Liverpool komst að samkomulagi við félagið um kaupverð.

Suarez má þó ekki æfa með nýjum liðsfélögum sínum fyrr en í október. Honum verður ekki einu sinni heimilt að mæta á völlinn til að horfa á leiki með Barcelona.

„Það er verið að koma fram við Luis eins og morðingja en ekki knattspyrnumann,“ sagði Aspas sem var nýverið lánaður frá Liverpool til Sevilla. „Það eru til morðingjar sem taka ekki út svo þunga refsingu. Það er of mikið að leyfa honum ekki að æfa með Barcelona eða mæta á völlinn.“

Aspas var keyptur til Liverpool í fyrra en náði ekki að setja mark sitt á liðið á síðustu leiktíð. „Þetta var frábært tímabil hjá Liverpool og ég lærði mikið af liðsfélögum mínum.“


Tengdar fréttir

Suárez má ekki æfa á meðan banninu stendur

Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA staðfesti í dag að Luis Suárez væri óheimilt að taka þátt í æfingum með félagsliði sínu á meðan hann tekur út fjögurra mánaða keppnisbann.

Tilboð Barcelona í Suárez samþykkt

Liverpool staðfesti rétt í þessu að félagið hefði samþykkt tilboð Barcelona í Luis Suárez. Suárez sem er 27 ára hefur samþykkt undir fimm ára samning hjá Barcelona.

FIFA hafnaði áfrýjun Suárez

Alþjóða knattspyrnusambandið hafnaði áfrýjun Luis Suárez í dag en leikmaðurinn var dæmdur í fjögurra mánaða bann fyrir að hafa bitið Giorgio Chiellini á Heimsmeistaramótinu í sumar.

Verð stuðningsmaður Liverpool að eilífu

Luis Suárez þakkaði stuðningsmönnum Liverpool fyrir tíma sinn hjá félaginu á heimasíðu Liverpool í dag eftir að félagið samþykkti tilboð Barcelona.

Suárez mun kæra niðurstöðu FIFA

Lögmaður Luis Suárez staðfesti í dag að skjólstæðingur sinn myndi kæra niðurstöðu FIFA en knattspyrnusambandið staðfesti að Suárez þyrfti að taka út fjögurra mánaða keppnisbann í gær.

Chiellini: Suarez fékk of harða refsingu

Giorgio Chiellini, ítalski varnarmaðurinn og fórnarlamb bitsins hjá Luis Suarez, er á því að refsing Luis Suarez sé of hörð en þetta kemur fram í yfirlýsingu inn á heimasíðunni Ítalans.

Suarez dæmdur í fjögurra mánaða bann

Luis Suarez var dæmdur í fjögurra mánaða bann frá öllum keppnum fyrir að hafa bitið Giorgio Chiellini í leik Ítalíu og Úrúgvæ á mánudaginn. Bannið nær til félags- og landsliðs Suárez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×