Shimon Peres lætur í dag af embætti forseta Ísraels eftir að hafa gegnt embættinu í sjö ár. Við embættinu tekur Reuven Rivlin, sem sigraði í atkvæðagreiðslu í ísraelska þinginu í síðasta mánuði.
Peres er 91 árs, og hefur verið forseti Ísraels frá árinu 2007 en hann hefur tekið þátt í ísraelskum stjórnmálum frá árinu 1959 þegar hann var fyrst kjörinn á þing.
Á vef Jewish Chronicle kemur fram að í kveðjuræðu sinni í ísraelska þinginu hafi Peres sagst hafa fylgst með Ísrael verða að sterku ríki. Í sambandi við deiluna á Gaza sagði hann að áskoranir kæmu oft upp án fyrirvara. Hann hafi ekki ímyndað sér að síðustu dagana í embætti myndi standa frammi fyrir því að þurfa að hughreysta syrgjandi fjölskyldufólk.
Hinn 74 ára gamli Reuven Rivlin, sem setið hefur á þingi fyrir Líkud-bandalagið, flokk Benjamins Netanyahu, forsætisráðherra, verður tíundi forseti Ísraels. Hann var kjörinn í embætti af ísraelska þinginu 10. júní síðastliðinn.

