Íraskir Kúrdar hafa lagt hald á tvær olíulindir í norðurhluta Írak. Mikil spenna er á svæðinu og þingmenn Kúrda hafa yfirgefið þing landsins. Forsætisráðherra Írak hefur sakað Kúrda um að skýla vígamönnum ISIS.
BBC segir hermenn Kúrda hafa fært sig inn á svæði í norðvesturhluta Írak eftir að íraski herinn flúði þaðan undan sókn ISIS í síðasta mánuði. Þar á meðal var borgin Kirkuk en fyrr en nú hafa Kúrdar ekki tekið olíulindir við borgina.
AP fréttaveitan segir þessa stækkun á sjálfstjórnarsvæði Kúrda hafa valdið miklum deilum á milli þeirra og stjórnvalda í Bagdad. Þá eru Kúrdar farnir að líta meira til sjálfstæðis og vinna nú að því að stofna nýtt ríki innan landamæra Írak.
Kúrdar segjast hafa tekið olíulindirnar eftir að þeir komust á snoðir um ætlanir stjórnvalda að skemma pípulögn á svæðinu.
Ráðherra olímála í Írak gaf í dag út tilkynningu þar sem hann sagði hernámið vera brot á stjórnarskránni og að það væri mikil ógn við samkennd þjóðarinnar.
