Fjölmenni var á mótmælafundi sem Ísland-Palestína boðaði til á Lækjartorgi í dag, þar sem þess var krafist að Sameinuðu þjóðarinar og umheimurinn allur beittu sér fyrir því að blóðbaðinu á Gaza ljúki.
Arna Ösp Magnúsdóttir sem verið hefur við sjálfboðaliðastörf í Palestínu var aðalræðurmaður fundarins. Hún sagði viðbrögð Sameinuðu þjóðanna hafa verið máttlaus þar sem menn sætu og tækjust á um orðlag í ályktunum, sem ekki mættu styggja Ísraelsmenn. Þá minnti hún á að íslensk stjórnvöld hefðu viðurkennt sjálfstæði Palestínu og því fylgdi ábyrð.
Fundurinn í dag var með þeim allra fjölmennustu sem Ísland-Palestína hefur boðað til, en Lækjartorg var smekkfult af fólki.
Í myndbandinu hér að ofan má heyra brot úr ræðu Örnu Aspar og sjá myndir frá fundinum, en systkinin KK og Ellen Kristjánsdóttir fluttu lagið „If You Were an Angel“ í upphafi fundar.
