Hamas-samtökin hefur lagt til að komi verði á tíu ára vopnahléi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Skilyrðin snúa að því að ákveðnum föngum í haldi Ísraelsmanna verði sleppt, opnun landamæra á Gaza og að hafnir á Gaza verði opnaðar. Vilja Hamas-samtökin að alþjóðasamfélagið hafi eftirlit með höfnunum. Sem stendur eru hafnir á Gaza í herkví.
Loft- og eldflaugaárásir Ísraelshers og Hamas-liða héldu áfram í gær eftir að hlé var gert á árásum í samræmi við vopnahléstillögur egyptskra stjórnvalda. Hernaðararmur Hamas sagðist ekki geta samþykkt tillögurnar þar sem slíkt myndi jafnast á við uppgjöf.
Tillögum Hamas var komið á framfæri á sjónvarpsstöðinni Al Jazeera. Í frétt Aftonbladet segir að 208 Palestínumenn hafi nú fallið og fleiri hundruð særst í loftárásum Ísraelsmanna frá því að árásir hófust á þriðjudag í síðustu viku, en einn Ísraelsmaður hefur fallið í eldflaugaárásum herskárra Hamas-liða.

