Sport

Federer vonast eftir mörgum titlum til viðbótar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Roger Federer með silfurskjöldinn.
Roger Federer með silfurskjöldinn. vísir/getty
Svisslendingurinn Roger Federer þurfti að játa sig sigraðan gegn Serbanum NovakDjokovic; 6-7 (7-9), 6-4, 7-6 (7-4), 5-7 og 6-4, á Wimbledon-meistaramótinu í tennis í gær.

Djokovic vann þar sinn níunda risatitil en Federer var á höttunum eftir sínum átjánda. Hann er sigursælasti tenniskappi heims en hefur ekki unnið risamót síðan hann fagnaði sigri á Wimbledon fyrir tveimur árum.

„Þetta fær mig til að trúa að það bíði mín margir frábærir hlutir í framtíðinni,“ sagði Federer bjartsýnn á blaðamannafundi í gær þrátt fyrir tapið.

Ferill Federers hefur aðeins legið niður á við undanfarin misseri en þetta var fyrsti úrslitaleikurinn á risamóti sem hann kemst í síðan hann vann Wimbledon árið 2012.

„Ég er mjög ánægður með hvernig ég spilaði þessar tvær vikur og það er gaman að sjá að ég geti áfram boðið upp á þessi gæði,“ sagði Federer.

„Hvort sem maður vinnur eða tapar er alltaf sérstakt að komast í úrslit á Wimbledon. Það er eitthvað sem maður gleymir aldrei. Sérstaklega þegar leikirnir eru jafndramatískir og í dag.“

Federer hefur unnið á Wimbledon sjö sinnum en hann vann mótið fimm sinnum í röð árið 2003-2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×