Íslenski boltinn

Refsingu fyrir þá sem ekki veita aðstoð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ, segir ekkert hægt að aðhafast frekar í máli leikmanns Dalvíkur/Reynis sem veðjaði á tap síns liðs í vetur.

Stefán Garðar Níelsson, formaður knattspyrnudeildar Dalvíkur/Reynis, viðurkenndi í samtali við Fréttablaðið þann 5. júní síðastliðinn að leikmaður liðsins - sem þó hafi ekki tekið þátt í leiknum - hafi viðurkennt að hafa veðjað á minnst þriggja marka tap liðsins í leik gegn Þór í Kjarnafæðismótinu þann 13. janúar.

Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ, sagði að þetta hafi komið honum opna skjöldu og óskaði eftir frekari upplýsingum frá félaginu.

„Ég fékk einfaldlega þau viðbrögð að þau vissu af einum leikmanni, sem þó var ekki í leikmannahópi liðsins hvorki þá né nú, sem veðjaði á leikinn. En frekari upplýsingar fékk ég ekki.“

„Þetta mál kennir okkur að við þurfum að herða á okkar reglum og hugsanlega á þann máta að hægt sé að refsa einstaklingum eða félögum fyrir að veita ekki nægilegar upplýsingar.“

Hann segist þó ekki hafa nægilegar upplýsingar til að meta hvort málið hafi skaðað trúverðugleika Dalvíkur/Reynis en viðurkennir að mál sem þessi séu blettur á íslenskri knattspyrnu.

„Þetta er sama vandamál og víðsvegar í Evrópu. Við þurfum að taka því - ekki aðeins knattspyrnuhreyfingin heldur löggjöfin og þeir sem fylgja henni eftir.“

„Það hafa komið upp samskonar mál á Norðurlöndunum og við þurfum að skoða þeirra regluverk mjög vel. Við þurfum að hafa heimildir til að geta refsað mönnum sem vilja ekki veita aðstoð í slíkum málum.“

Hann reiknar ekki með því að hægt verði að grípa til frekari aðgerða gegn Dalvík/Reyni. „Við höfum í raun litlar forsendur til að rannsaka málið enn frekar.“


Tengdar fréttir

Íslenskur leikmaður veðjaði á úrslit eigin liðs

Stefán Garðar Níelsson, formaður knattspyrnudeildar Dalvíkur/Reynis, staðfesti í samtali við Fréttablaðið í gær að leikmaður félagsins hefur viðurkennt að hafa veðjað á úrslit eigin liðs í janúar síðastliðnum.

Undrast framkomu Dalvíkur/Reynis

Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ undrast framkomu Dalvíkur/Reynis í tengslum við málefni leikmanns sem lagði pening undir gegn eigin liði.

Veðmálasíða neyddist til þess að lækka stuðulinn

Töluvert hærri upphæðir voru lagðar undir á leik Þórs og Dalvíkur/Reynis í Kjarnafæðismótinu þann 13. janúar síðastliðinn en eðlilegt getur talist. Þetta staðfesti Pétur Hrafn Sigurðsson, deildarstjóri hjá Íslenskum getraunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×