Sport

Nadal og Federer áfram | Williams úr leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rafael Nadal er komin áfram í 16-manna úrslitin á Wimbledon.
Rafael Nadal er komin áfram í 16-manna úrslitin á Wimbledon. Vísir/Getty
Sjötta degi Wimbledon mótsins í tennis er lokið.

Spánverjinn Rafael Nadal, sem vann Opna franska meistaramótið fyrr í mánuðinum, hafði betur gegn Mikail Kukushkin frá Kasakstan í fjórum settum; 6-7, 6-1, 6-1 og 6-1. Nadal mætir Ástralanum Nick Kyrgios í 16-manna úrslitum.

Svisslendingurinn Roger Federer bar sigurorð af Kólumbíumanninum Santiago Giraldo í þremur settum; 6-3, 6-1 og 6-3. Hann mætir annað hvort Pólverjanum Jerzy Janowicz eða Spánverjanum Tommy Robredo í næstu umferð.

Kanadamaðurinn Milos Raonic sigraði Pólverjann Lukasz Kubot í þremur settum; 7-6, 7-6 og 6-2. Hann leikur annað hvort gegn Japanum Kei Nishikori eða hinum ítalska Simone Bolelli í næstu umferð.

Serena Williams féll úr leik fyrir Alize Cornet.Vísir/Getty
Í kvennaflokki gerðust óvæntir hlutir, en Serena Williams, fimmfaldur meistari á Wimbledon, laut í gras fyrir Alize Cornet frá Frakklandi í þremur settum; 1-6, 6-3 og 6-4, en Williams hefur ekki fallið svona snemma úr leik á Wimbledon frá árinu 2005. Cornet, sem er í 24. sæti heimslistans, mætir Eugenie Bouchard frá Kanada í fjórðu umferðinni.

Þá komst hin rússneska Maria Sharapova, sem hrósaði sigri á Opna franska í byrjun mánaðarins, einnig áfram í fjórðu umferð eftir sigur á Alison Riske frá Bandaríkjunum í tveimur settum; 6-3 og 6-0. Sharapova mætir Angelique Kerber frá Þýskalandi í næstu umferð.

Á morgun er frídagur, en keppni á Wimbledon hefst aftur á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×