Í málinu voru þeir Lárus Welding, Jón Ásgeir Jóhannesson, fjárfestir, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson, sem báðir voru starfsmenn Glitnis, ákærðir fyrir umboðssvik vegna sex milljarða króna láns sem Glitnir veitti félaginu FS38 ehf. sem var í eigu Pálma Haraldssonar, vegna kaupa á félaginu Aurum Holdings Ltd.
Sakborningarnir mættu ekki til að vera viðstaddir dómsuppsöguna.
Einn þriggja dómara skilaði sérákvæði og taldi að sakfella ætti Lárus, Magnús Arnar og Jón Ásgeir fyrir umboðssvik og hlutdeild í þeim.
Farið var fram á sex ára fangelsi yfir Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra, en fjögurra ára fangelsi yfir þeim Jóni Ásgeiri, einum stærsta eiganda bankans, Magnúsi Arnari, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs, og Bjarna Jóhannessyni, fyrrverandi viðskiptastjóra.
Fulltrúi sérstaks saksóknara sagði að embættið myndi núna skoða dóminn og taka ákvörðun í framhaldinu. Niðurstaðan værri ekki í takt við það sem lagt var upp með þar á bæ en endanleg ákvörðun um áfrýjun er í höndunum á ríkissaksóknara.

