Körfubolti

Saunders mættur aftur á hliðarlínuna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Flip Saunders, þjálfari og forseti Minnesota Timberwolves.
Flip Saunders, þjálfari og forseti Minnesota Timberwolves. Vísir/Getty
Flip Saunders, forseti Minnesota Timberwolves, leitaði ekki langt yfir skammt þegar kom að því að ráða nýjan þjálfara til félagsins. Hann réði nefnilega sjálfan sig til starfsins.

Minnesota hefur verið í þjálfaraleit síðan Rick Adelman settist í helgan stein eftir tímabilið. Bæði Saunders og Glen Taylor, eigandi félagsins, sögðu þó að ráðning þess fyrrnefnda hefði verið hálfgert neyðarúrræði.

"Það var alltaf mín ósk að við myndum finna einhvern annan til að gegna starfi þjálfara svo Flip gæti einbeitt sér að forsetastarfinu," sagði Taylor. "En eftir að hafa hugsað málin komust við að þeirri niðurstöðu að besti leikurinn í stöðunni væri að Flip tæki við sem þjálfari."

Saunders er öllum hnútum kunnugur hjá Minnesota en hann stýrði liðinu áður í rúm tíu ár, frá 1995 til 2005. Á þessu tíu ára tímabili komst Minnesota átta sinnum í úrslitakeppnina, í einu skiptin sem það hefur gerst í sögu félagsins.

Lengst komst liðið í úrslit Vesturdeildarinnar. Það gerðist vorið 2004 þegar Úlfarnir með Kevin Garnett í broddi fylkingar biðu lægri hlut, 4-2, fyrir Shaquille O'Neal og félögum í Los Angeles Lakers.

Saunders, sem hefur einnig stýrt Detroit Pistons og Washington Wizards á sínum þjálfaraferli, mun áfram gegna forsetastöðunni hjá Úlfunum, en hann á einnig hlut í félaginu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×