Sport

Sharapova meistari á Opna franska í annað sinn á þremur árum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sharapova smellir kossi á verðlaunagripinn.
Sharapova smellir kossi á verðlaunagripinn. Vísir/Getty
Rússneska tenniskonan Maria Sharapova hrósaði sigri á Opna franska meistaramótinu í gær eftir að hafa lagt Simonu Halep frá Rúmeníu í þremur settum í úrslitaleik.

Leikurinn, sem stóð yfir í rúmlega þrjár klukkustundir, endaði 6-4, 6-7 og 6-4.

Sharapova lagði Eugenie Bouchard frá Kanada (4-6, 7-5, 6-2) í undanúrslitum, á meðan Halep tryggði sér þátttökurétt í sínum fyrsta úrslitaleik á stórmóti með því að sigra Andreu Petkovic frá Þýskalandi (6-2, 7-6) í hinni undanúrslitaviðureigninni.

Þetta var í þriðja skiptið á jafnmörgum árum sem Sharapova kemst í úrslitin á Opna franska meistaramótinu. Árið 2012 lagði hún Söru Errani í tveimur settum (6-3, 6-2), en árið eftir beið hún lægri hlut fyrir Serenu Williams (6-4, 6-4).

Sharapova hefur nú unnið fimm stórmót á ferlinum, en auk sigranna tveggja á Opna franska hefur hún hrósað sigri á Wimbledon mótinu (2004), Opna bandaríska (2006) og Opna ástralska (2008).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×