Skoski tenniskappinn Andy Murray hefur fengið nýjan þjálfara. Hún heitir Amélie Mauresmo og kemur frá Frakklandi.
Mauresmo, sem verður 35 ára í júlí, vann á sínum tíma tvö stórmót - Opna ástralska (2006) og Wimbledon (2006) - auk þess sem hún vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004. Mauresmo sat einnig um tíma í efsta sæti heimslistans.
"Ég er mjög spenntur fyrir þeim möguleikum sem felast í samstarfinu," sagði Murray. "Ég hef alltaf litið upp til Amélie og dáðst að henni."
Murray, sem hefur unnið tvö stórmót á ferlinum - Opna bandaríska (2012) og Wimbledon (2013) - féll úr leik gegn Spánverjanum Rafael Nadal í undanúrslitum á Opna franska meistaramótinu sem nú stendur yfir.
Seinna í dag mætast Nadal og Novak Djokovic í úrslitaleik Opna franska.
Murray kominn með nýjan þjálfara
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
