Skoðun

Garðabær- fyrir okkur öll

Steinþór Einarsson og Guðrún Arna Kristjánsdóttir skrifar
Þjónustugjöld í Garðabæ eru einhver þau hæstu á höfuðborgarsvæðinu svo sem fyrir leikskóla, tómstundaheimili og fæði í skólum. Þegar gerður er samanburður á útgjöldum fjögurra manna fjölskyldna í Garðabæ og í Reykjavík kemur í ljós að lægra útsvar í Garðabæ er ekki að hafa nein áhrif. Útgjöld fjögurra manna fjölskyldunnar í Garðabæ eru töluvert hærri í hverjum mánuði. Þessu viljum við í Samfylkingunni breyta. Það þarf að taka alla skatta inn í samanburðinn en ekki tala bara um útsvarið.

Garðabær er ört stækkandi sveitarfélag og til þess að almenningssamgöngur geti verið raunhæfur valkostur fyrir alla íbúa þarf að fjölga ferðum á kvöldin og um helgar og tryggja þarf betri tengingar milli hverfa og sveitarfélaga.

Biðlistar eftir félagslegu húsnæði hafa verið lengi við lýði í Garðabæ og þarf að gera átak til að taka á biðlistum ásamt því að koma upp þjónustuíbúðum fyrir fatlaða einstaklinga. Fjármagn hefur verið í fjárhagsáætlun bæjarins undanfarin ár til byggingar þjónustuíbúða án þess að nokkuð hafi verið aðhaft.

Við í Samfylkingunni viljum gera opin svæði skemmtilegri með auknum afþreyingarmöguleikum fyrir bæjarbúa. Samfylkingin hefur í þessum efnum meðal annars fengið samþykktar tillögur í bæjarstjórn um strandblakvelli á Álftanesi og á Ásgarðssvæði og tillögu um skautasvell í nýjum miðbæ Garðabæjar. Mikilvægt er að unnið verði eftir tillögum starfshóps um aðstöðumál íþrótta- og tómstundafélaga. Starfshópurinn sem skipaður var af bæjarstjórn kom með tillögur um uppbyggingu mannvirkja svo sem knatthúsi í Ásgarði og gervigrasvelli á Álftanesi ásamt endurbótum á hinum ýmsu mannvirkjum félaga í Garðabæ.

Guðrún Arna Kristjánsdóttir skipar 2. sæti á lista Samfylkingar og óháðra í Garðabæ.
Hvatapeningar er mikilvæg viðbót fyrir barnafjölskyldur til að standa straum af íþrótta og tómstundaiðkun og viljum við í Samfylkingunni hækka hvatapeninga á kjörtímabilinu.

Samfylkingin vill að átak verði gert í endurnýjun gatna og gangstígum í eldri hverfum sem víða eru farin að láta verulega á sjá og að haldið verði áfram með vinnu við tengingar sveitarfélaga með göngu-og hjólastígum.

Nú erum við í fyrsta skipti að kjósa í sameinuðu sveitarfélagi Garðabæjar og Álftaness. Stærra sameinað sveitarfélag gefur okkur mörg tækifæri í þjónustu og uppbyggingu sem við eigum að nýta okkur á sem bestan hátt.

Nú er tækifæri til að breyta stjórnarháttum í Garðabæ, það er afar mikilvægt  í opinberri stjórnsýslu að íbúar sveitarfélagsins geti með einföldum hætti nálgast upplýsingar um ákvarðanir sem teknar eru í nefndum og ráðum á heimasíðu bæjarins. Mikilvægt er að fundargerðir séu ítarlegar og niðurstöður í hverju máli komi fram í fundargerðum. Einnig að upplýsingar um þjónustu til handa eldri borgurum séu aðgengilegar á einum stað á heimasíðu bæjarins. 




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×