Körfubolti

Hannes kjörinn í stjórn FIBA Europe

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hannes S. Jónsson var kjörinn í stjórn FIBA Europe.
Hannes S. Jónsson var kjörinn í stjórn FIBA Europe. Vísir/Stefán
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, var kjörinn í stjórn FIBA Europe, evrópska körfuknattleikssambandsins, á þingi samtakanna sem nú stendur yfir. Frá þessu var greint á heimasíðu KKÍ.

Hannes bauð sig fram í 23. sæti ásamt 34 öðrum. Hann verður einn fjögurra fulltrúa Norðurlandanna sem munu sitja í nýrri stjórn FIBA Europe.

Tyrkinn Turgay Demiral var kjörinn nýr forseti sambandsins með 40 atkvæðum af 50.

Ólafur Rafnsson var forseti FIBA Europe þegar hann féll frá 19. júní á síðasta ári. Í gær, föstudag, samþykkti þingið að gera Ólaf að heiðursfélaga sambandsins. Af því tilefni eru Gerður Guðjónsdóttur, ekkja Ólafs, og börn þeirra stödd á þinginu, en þau munu taka við heiðursnafnbót Ólafs í sérstöku hófi nú í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×