Sport

Stöðvuðu bar­daga al­blóðugrar Val­gerðar

Aron Guðmundsson skrifar
Valgerður Guðsteinsdóttir og Shauna O´Keefe mættust í hnefaleikahringnum á Írlandi í kvöld
Valgerður Guðsteinsdóttir og Shauna O´Keefe mættust í hnefaleikahringnum á Írlandi í kvöld Vísir/Getty

Valgerður Guðsteinsdóttir,  eina íslenska atvinnukonan í hnefaleikum, laut í kvöld í lægra haldi gegn Shauna O´Keefe á stóru hnefaleikakvöldi í 3Arena leikvanginum í Dublin. 

Teymi Valgerðar ákvað að stíga inn í fjórðu lotu og láta dómarann stöðva bardagann en á þeim tímapunkti hafði Valgerður hlotið skurð á enni eftir mikil átök í þriðju lotu. 

Sökum stöðvunarinnar vinnur heimakonan O´Keefe bardagann á tæknilegu rothöggi og er hún þá enn ósigruð á sínum atvinnumannaferli með þrjá sigra í þremur bardögum. Þetta var hins vegar sjötta tap Valgerðar en hún hefur unnið sjö.

Jafnræði var með Valgerði og O´Keefe í fyrstu lotu en í þeirri annarri náði sú írska góðu höggi á nef okkar konu svo úr því fór að blæða. Valgerður þurfti að verjast vel það sem eftir lifði þeirrar lotu.

Í þriðju lotu skullu höfuð Valgerðar og O´Keefe saman með þeim afleiðingum að skurður opnaðist á enni Valgerðar. Eftir skoðun var þó ljóst að bardaginn gæti haldið áfram. Valgerður og O´Keefe skullu hins vegar aftur saman fyrir lok lotunnar og var bardaginn næstum því stöðvaður milli þriðju og fjórðu lotu. 

Hugað var að skurðinum á enni Valgerðar og var hægt að búa þannig um sárið að Valgerður gat haldið áfram. En hnitmiðuð högg frá O´Keefe í fjórðu lotu sáu til þess að skurðurinn opnaðist aftur á enni Valgerðar og það var þá sem teymi Íslendingsins steig inn í og lét dómarann stöðva bardagann. 

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×