Skoðun

Opið bréf til afskiptalausra feðra

Hlédís Sveinsdóttir skrifar
Kæru afskiptalausu feður, verandi eða verðandi. Þetta bréf er til ykkar. Frá móður sem í þrjú ár hefur reynt að setja sig í ykkar spor. Með þessum árangri:

Stundi fólk á annað borð samlíf getur það átt „á hættu“ að úr verði barn. Undrasmíðin, sjálft barnið, kærir sig kollótt um forsendur foreldra. Okfrumunum er nákvæmlega sama hvort foreldrar þeirra séu allsgáðir eða ölóðir, gift hvort öðru eða öðrum, unglingar eða öldruð, varið eða óvarið. Það er aðeins ein 100% örugg leið treysti maður sér alls ekki til að axla þá ábyrgð sem athöfninni getur fylgt. Sú leið kallast skírlífi.

Þetta ættu ekki að vera ný fræði fyrir neinn en vert og jafnvel þarft er að minna unga sem aldna karlmenn á það. Það eru jú þeir sem ekki hafa val eftir að sáð- og eggfruma þróa með sér vinskap. Það er eitthvað sem karlmenn þurfa að gera sér grein fyrir í upphafi og alltaf. Valið þeirra er nefnilega algjörlega bundið við upphafið.

Það hallar því miður á feður varðandi forræði og lögheimili barna. Kerfið virðist líka vera ráðalaust þegar feður eru beittir tálmunum á umgengni. Þetta veit ég og það tekur mig sárt. Það tekur mig líka sárt að karlmenn sem vilja halda fóstri þegar kvenmaðurinn vill það ekki, hafa ekkert um það að segja. Það er ósanngjarnt og hlýtur að vera mjög erfitt. En svona eru forsendurnar og því miður engin betri lausn til, jafnvel þótt bæði kynin myndu vilja skipta. Kynin standa heldur ekki jöfn þegar kvenmaður vill halda fóstri en karlmaðurinn ekki. Það hlýtur að vera auðveldara að sætta sig við að eignast barn sem ekki var ráðgert heldur en hitt. Það getur jú margt verra sem getur komið fyrir fólk en að eignast óvart barn.

Óvænt þungun er ekki bara erfið upplifun fyrir föðurinn, þar tala ég af reynslu. Ég minnist þess að hafa gengið í gegnum öll stig áfalls. Fyrst fann ég fyrir ofsareiði gagnvart manninum sem barnaði mig, þó ég telji mig vita að það hafi ekki verið af ásettu ráði og ábyrgð okkar beggja jöfn. Síðan tók við hræðsla og afneitun þar sem ég gat ekki horfst í augun við staðreyndir. Þá sorg yfir forsendum þungunarinnar og loks sátt við það sem ekki fæst breytt.

Það er ekkert samhengi á milli þess að hafa ekki ætlað sér að verða foreldri og að elska ekki barnið sitt. Það þekki ég. Ég veit hvernig það er að eiga barn með manneskju sem mig langar ekki að eiga barn með, á erfiðum forsendum og á vægast sagt óheppilegum tímapunkti.

Á aðeins nokkrum mánuðum er hægt að fara úr því að gráta angistarfullt yfir því að eiga von á barni, yfir í að gráta hugsanlegt hártog á leikskóla. Sem betur fer er ást flestra foreldra náttúruafl, eitthvað sem er öllu öðru yfirsterkara og gefur skít í allar forsendur. Það skiptir ekki máli hver á barnið með manni eða hvort tímasetningin sé góð eða slæm. Manns eigin hagsmunir víkja umsvifalaust fyrir þeirra. Ást í sinni fegurstu mynd, hrein og óskilyrt. Ekkert barn ætti að þurfa að upplifa höfnun því að ekkert barn hefur til hennar unnið og ekkert barn ætti að líða fyrir forsendur foreldra sinna.

Samsetning fjölskyldna er svo fjölbreytileg og tek ég hatt minn ofan fyrir öllum þeim frábæru foreldrum sem láta allskonar forsendur og fyrirkomulag ganga upp með hagsmuni barna að leiðarljósi. Ég dæmi fólk ekki út frá trú, kyni eða klæðnaði. Mér er hinsvegar ekki sama hvernig það kemur fram við börn. Það er heilög skylda hverrar manneskju að koma vel fram við börn – sín eigin og annara.

Samt eru margir karlmenn sem ekki sinna því að vera feður barnanna sinna. Finnst þeim kannski ábyrgðin alfarið kvenna því það eru þær sem verða ófrískar og þær hafa „val“ um fóstureyðingu? Sjá þeir ekki heildarmyndina, eru reiðir barnsmæðrum sínum og telja þær einar bera ábyrgð á getnaði? Eða þetta klassíska að konurnar ætluðu svo greinilega (eftirá) að eiga með þeim barn? Eða eru þeir bara að eilífu amen fastir á fyrsta stigi áfalls?

Þessar hugleiðingar eru ekki skrifaðar í reiði. Reiðin gagnvart þunguninni er löngu farin og þakklæti komið þess í stað. Ég er þakklát lífinu fyrir að fá að vera móðir þessa dásamlega barns sem dóttir mín er og ekki vildi ég hafa eitt hár á höfði hennar öðruvísi. Lífið vinnur svo fallega ef maður leyfir því. Ég elska hana fyrir það sem hún var, er og verður – alltaf! Eftir stendur þó reiðin gagnvart framkomu í hennar garð, enda ætti engu foreldri að vera sama ef illa er komið fram við barn þess.

Ég veit í gegnum hvað ég hef gengið með dóttur minni þegar lífi hennar og limum var ógnað í fæðingu, vanmátturinn og óttinn um hennar lífsgæði og hamingju, kvíðinn fyrir því að fá vondar fréttir úr skoðunum og síðast en ekki síst allar andvökunæturnar og almennar áhyggjur sem felast í ábyrgð einstæðra foreldra. En aldrei myndi ég vilja skipta. Ég er sú heppna að fá ást stelpunnar minnar endurgoldna, deila með henni sorgum, sigrum og öllu þar á milli. Ég get ekki ímyndað mér þá sálarangist sem heilbrigðir menn líða sem ekki finnast þeir hafi rými til að elska barnið sitt! Þar hafa þeir alla mína samúð, jafnvel þó vítið sé sjálfskapað.

Ósk mín er að þessar hugleiðingar hreyfi ekki bara við afskiptalausum feðrum heldur samfélaginu í heild. Við þurfum að gera okkur grein fyrir ójafnri stöðu kynja þegar kemur að óvæntri þungun. Ræða þetta opinskátt, fræða unga drengi og aðstoða feður við að takast á við slíkar aðstæður þannig að best sé fyrir þá sjálfa og börnin þeirra.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×