Sport

Fyrsti titill Hingis í sjö ár

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Martina Hingis fagnar með Sabine Lisicki.
Martina Hingis fagnar með Sabine Lisicki. Vísir/Getty
Martina Hingis frá Sviss vann um helgina sitt fyrsta mót í tennis síðan hún hætti fyrst árið 2007.

Hingis var afar sigursæl frá unga aldri en hún var aðeins fimmtán ára gömul er hún vann sitt fyrsta stórmót í tvíliðaleik. Hún vann svo fimm titla á stórmótum á einliðaleik og komst í efsta sæti heimslistans áður en hún varð tvítug.

Meiðsli settu svo strik í reikninginn eftir það og ákvað hún að leggja spaðann á hilluna árið 2007, þá 27 ára gömul.

En hún sneri svo aftur á tennisvöllinn á síðasta ári og tók þátt í nokkrum mótum í tvíliðaleik. Um helgina bar hún sigur á býtum ásamt Sabine Lisicki frá Þýskalandi á Sony Open-mótinu í Miami.

„Þetta er mjög spennandi,“ sagði Hingis og sagðist opin fyrir því að halda áfram. „Ég veit ekki hverju ég hefði svarað í síðustu viku en hlutirnir breytast eftir svona sigra. Ég væri vel til í að spila áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×