„Ég hefði kosið að niðurstaðan væri á annan veg. En þingflokkur ákveður með þessum hætti að draga umsóknina til baka og ég er í þingliði Sjálfstæðisflokksins,“ segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, um ákvörðun þingflokks Sjálfstæðisflokksins að draga aðildarumsókn Íslands í Evrópusambandið til baka.
Ragnheiður segist ekki ætla að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum, þrátt fyrir að vera ósammála meirihluta flokkssystkina sinna á þingi. Hún segist ekki geta tjáð sig um hvort Sjálfstæðisflokkurinn klofni vegna málsins.
„Ég er enginn spámaður þannig ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég mun ekki ganga úr Sjálfstæðisflokknum. Þó ég sé ekki sömu skoðunar í þessu máli og meirihluti landsfundarfulltrúa, þá er Sjálfstæðisflokkurinn í grunnatriðum flokkurinn minn og ég mun ekki ganga úr honum. Það er meira sem sameinar okkur.“
Hún segist hafa vitað stöðu málsins og afstöðu annarra í Sjálfstæðisflokkinum. „Það er alveg ljóst að landsfundarályktunin var á þá veru að okkur væri betur borgið utan Evrópusambandsins, það hætti að hætta viðræðum og ekki hefja þær á ný nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ljóst að meirihluti Sjálfstæðismanna á landsfundi er á þessari skoðun. Við erum hópur innan Sjálfstæðisflokksins sem hefur aðra skoðun, og við erum í minnihluta,“ segir Ragnheiður.
