Körfubolti

Öqvist verður ekki áfram með landsliðið

Öqvist er hættur að þjálfa Jón Arnór og félaga.
Öqvist er hættur að þjálfa Jón Arnór og félaga.
Svíinn Peter Öqvist verður ekki áfram landsliðsþjálfari karla í körfubolta eins og vonir stóðu til en hann hefur þjálfað liðið undanfarin tvö ár.

Í fréttatilkynningu frá körfuknattleikssambandi Íslands segir að Öqvist gefi starfið frá sér vegna persónulegra ástæðna en hann hefur verið með tilboð á borðinu frá KKÍ.

Öqvist hefur stýrt karlalandsliðinu undanfarin tvö ár og náði liðið góðum árangri undir hans stjórn á síðasta ári en það vann gríðarlega sterk lið Makedóníu og Svartfjallalands á alþjóðlegu móti í Kína. Þá var liðið hársbreidd frá því að komast í umspil um sæti á Evrópumótinu 2015.

Stjórn KKÍ fer nú í það að finna nýjan landsliðsþjálfara og segir í tilkynningunni að vonast sé til að það taki ekki langan tíma. Að lokum er Öqvist þakkað fyrir sitt starf og það sagt hafa eflt íslenskan körfubolta.

Jón Arnór Stefánsson, fremsti körfuboltamaður landsins, sagði í viðtali við Vísi í síðustu viku að hann vonaðist til Öqvist yrði áfram.

Öqvist er þjálfari sænska úrvalsdeildarliðsins Sundsvall Dragons en með því leika landsliðsmennirnir Jakob Örn Sigurðarson, Hlynur Bæringsson og Ægir Þór Steinarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×