Körfubolti

Jón Arnór: Ég mun sakna Friðriks Inga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Arnór Stefánsson sér á eftir Friðriki Inga Rúnarssyni.
Jón Arnór Stefánsson sér á eftir Friðriki Inga Rúnarssyni.
Jón Arnór Stefánsson, fremsti körfuboltamaður landsins, er sorgmæddur yfir brotthvarfi Friðriks Inga Rúnarssonar sem framkvæmdastjóra KKÍ

Körfuknattleikssambandið tilkynnti í lok síðasta mánaðar að Friðrik Ingi myndi láta af störfum eftir átta ár sem framkvæmdastjóri og bar við hagræðingu í rekstri.

„Fyrir mig persónulega er þetta mjög dapurt að heyra. Ég las bara um þetta í fréttum þegar þetta gerðist,“ segir Jón Arnór í samtali við Vísi.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa þegar opinberað var að Friðrik Ingi væri að hverfa á braut og ritað Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, pistil um ágæti Friðriks og erfiðan rekstur sérsambandanna á Facebook-síðu sína.

„Ég vil bara segja að Frikki hefur verið algjör drifkraftur í þessu sérsambandi með fullri virðingu fyrir öðrum. Hann hefur verið mjög framarlega í öllu en það hefur auðvitað aldrei verið leyndarmál að það er fjárhagsvandi hjá KKÍ eins og hjá flestum samböndum fyrir utan kannski KSÍ,“ segir Jón Arnór.

„Ég þekki ekki tölurnar eða bókhaldið en það er afskaplega leiðinlegt að þessa ákvörðun hafi þurft að taka og ekki sé til meira fjármagn.“

„Ég mun sakna Frikka og hans krafta mikið. Það held ég að allir geri. Hann hefur verið mér og öllum innan handar. Hann er góður í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur. Frikki er góður í samskiptum maður á mann og með góð sambönd í körfuboltaheiminum. Hans verður sárt saknað,“ segir Jón Arnór Stefánsson

Nánar er rætt við Jón Arnór í Fréttablaðinu á morgun um bikarkeppnina á Spáni sem stendur nú yfir og landsliðsmálin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×