Handbolti

Frábær frammistaða lærisveina Patreks en naumt tap

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Julen Aguinagalde spilaði með Spánverjum í dag.
Julen Aguinagalde spilaði með Spánverjum í dag.
Heimsmeistarar Spánverja unnu nauman eins marks sigur á Austurríki, 28-27, í öðrum leik dagsins á EM í handbolta.

Austurríki hefði þurft að vinna leikinn til að auka líkur Íslands á að komast í undanúrslit mótsins. En með sigri Spánverja er ljóst að heimsmeistararnir eru komnir hálfa leið í undanúrslitin.

Austurríska liðið, sem er þjálfað af Patreki Jóhannessyni, var hársbreidd frá því að ná jafntefli í leiknum þrátt fyrir að hafa verið tveimur mörkum undir þegar mínúta var eftir af leiknum.

Hornamaðurinn Robert Weber skoraði þá mark og töpuðu Spánverjar boltanum þegar rúmar tíu sekúndur voru eftir. Austurríkismenn fengu aukakast rétt áður en leiktíminn rann út en Viktor Szilagyi hitti ekki á markið.

Spánverjar voru lengst af með undirtökin í dag og náðu mest fimm marka forystu um miðbik síðari hálfleiks, 23-18. En þá komu lærisveinar Patreks til baka og hleyptu mikilli spennu í lokamínútur leiksins.

Línumaðurinn Julen Aguinagalde skoraði átta mörk fyrir Spánverja í dag en hann missti af upphafi mótsins vegna meiðsla. Joan Canellas kom næstur með sjö mörk.

Dominik Schmid skoraði sex mörk fyrir Austurríki og þeir Miximilian Hermann, Szilagyi og Weber fimm hver.

Danmörk og Spánn eru með sex stig á toppi milliriðils 1 en Ísland er með fimm stig. Danir eiga leik til góða gegn Ungverjum í kvöld og geta þá tryggt sér sæti í undanúrslitunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×