Handbolti

Wyszomirski sá um Svíana | Frakkland áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ótrúleg frammistaða Piotr Wyszomirski fer í sögubækurnar.
Ótrúleg frammistaða Piotr Wyszomirski fer í sögubækurnar. Vísir/AFP
Markvörðurinn Piotr Wyszomirski sýndi heimsklassaframmistöðu þegar að Pólverjar rúlluðu upp Svíum á EM í handbolta í kvöld, 35-25.

Um mikilvægan leik var að ræða en liðin voru bæði með fjögur stig í milliriðli 2 og gátu með sigri í dag blandað sér í baráttuna um sæti í undanúrslitum.

Svíar byrjuðu miklu betur og komust yfir, 5-1. Slawomir Szmal byrjaði í marki Pólverja að venju en innkoma Piotr Wyszomirski gerbreytti leiknum. Hann einfaldlega lokaði markinu og sýndi ótrúleg tilþrif. Pólverjar skoruðu á þessum kafla átta mörk í röð.

Pólland hafði þriggja marka forystu í hálfleik, 15-12, en stungu svo af í síðari hálfleik. Wyszomirski gaf ekkert eftir og varði alls sautján skot. Hann var lengi vel með 70 prósenta hlutfallsmarkvörslu en hún lækkaði í 53 prósent eftir að Svíar skoruðu nokkur mörk undir lok leiksins.

Kim Ekdahl du Rietz skoraði sex mörk fyrir Svía og var þeirra besti leikmaður. Hjá Póllandi var Krzysztof Lijewski markahæstur með sex mörk.

Úrslitin þýða að Frakkland er öruggt með efsta sæti milliriðils 2 og þar með sæti í undanúrslitum. Það er einnig ljóst að Svíar enda í fjórða sæti riðilsins með fjögur stig.

Króatía og Pólland eru bæði með sex stig og eigast við í hreinum úrslitaleik á morgun um annað sæti riðilsins og þar með sæti í undanúrslitum. Verði niðurstaðan jafntefli dugir markatala og þar hafa Króatar yfirhöndina.


Tengdar fréttir

Króatar fóru létt með Rússa

Króatía er í góðri stöðu í milliriðli 2 eftir sannfærandi sigur á Rússlandi í fyrsta leik dagsins á EM í handbolta, 33-25.

Frakkar enn ósigraðir á EM

Frakkland vann öruggan sigur á Hvíta-Rússlandi, 39-30, á EM í handbolta í dag og tróna á toppi milliriðils 2 með fullt hús stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×