Hin hvít-rússneska Victoria Azarenka datt út á móti Agnieszku Radwańska frá Póllandi en Radwańska var í fimmta sæti á styrkleikalista mótsins á meðan Azarenka var önnur á eftir Serenu Williams. Williams datt út í fjórðu umferð.
Victoria Azarenka var búin að vinna opna ástralska meistaramótið undanfarin tvö ár og hafði alls leikið 18 leiki í röð á Melbourne Park án þess að tapa. Það gekk ekkert upp hjá Azarenku í þessum leik en hún gerði sig seka um mörg mistök í leiknum.
Agnieszka Radwańska vann leikinn 6-1, 5-7 og 6-0 og mætir Dominiku Cibulková frá Slóvakíu í undanúrslitunum. Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Eugenie Bouchard frá Kanada og Li Na frá Kína. Li Na er sú eina af þeim sem er eftir í keppninni sem hefur unnið risamót.
