Harmageddon hefur heyrt vitlausari hluti.
Það er morgunljóst að Ísland er ekki á réttu tímabelti. Sést það t.a.m. bersýnilega á meðfylgjandi kortum. Ísland staðsetur sig nú á GMT tímabeltinu svokallaða, Greenwich Mean Time, eftir Greenwich borgarhluta Lundúnarborgar.

Þar sem jörðin er 360 gráður og tímabeltin 24 er hvert tímabelti 15° og einn klukkutími. Það þýðir að ein gráða jafngildir 4 mínútum. Þannig er hægt að reikna út hve langur tími líður á milli sólarupprása tveggja staða. T.d. er Reykjavík 7.5° vestar en Egilsstaðir og munar því 30 mínútum á sólarupprás staðanna (7.5°x4mín).
Í stuttu máli þýðir því 22° fjarlægð Íslands frá GMT línunni að sólarupprás á Íslandi er 88 mínútum seinna en í löndum sem staðsett eru á GMT línunni, og fylgja því tímabelti. S.s. löndum á réttum tímabeltum, (og eru á sömu norðlægum slóðum og Ísland að sjálfsögðu).
Ísland er nefnilega á vitlausum stað.
Tilfærsla Íslands á tímabeltiskortinu, eða eins og talað er um “að breyta klukkunni”, myndi því færa Ísland nær Bandaríkjunum í tíma og fjær Evrópu. Pólitískt kann sumum að þykja það ófýsilegt, en landafræðin lýgur ekki. Það er hið eina rétta í stöðunni.
Ísland yrði þar með á réttu tímabelti, þó að leggja þyrfti örlitla lykkju á hana til að sækja Keflavík. Keflvíkingar yrðu því enn á vitlausu tímabelti, en Óli Geir getur samt huggað sig við að komast í sólbað klukkutíma fyrr.
Með því að sækja sólina fyrr á morgnanna væru líkamsklukkur landsmanna betur í takt við sólargang jarðar. Skólakrakkar vakna hressari á morgnanna, morgnarnir verða bjartari og framtíðin, bókstaflega, bjartari. Björt framtíð að standa undir nafni. Svo má auðvitað gera ráð fyrir því að það hlýni fyrr á morgnanna.
Ekki svo slæm tilhugsun á dimmum vetrarmorgni.