Handbolti

Björgvin Páll: Þeir kunna að vinna svona leiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. Mynd/HSÍ
Íslenska landsliðið tapaði með fimm marka mun á móti heimsmeisturum Spánverja í lokaleik sínum í B-riðli á EM í handbolta í Danmörku. Björgvin Páll Gústavsson átti mjög góðan leik í íslenska markinu en það dugði ekki til.

„Við vorum með þá í okkar greipum hluta af þessum leik en svo eru þeir bara klókir. Þeir kunna að vinna svona leiki og hafa gert það margoft. Þetta er þungt lið sem erfitt er að eiga við. Við getum líka horft til okkar sjálfra því við erum að gera fullt af tæknifeilum á mikilvægum tímapunktum, erum við líka að klúðra fullt af skotum og vorum með einbeitingaleysi í vörninni og fleira," sagði Björgvin Páll í samtali við Einar Örn Jónsson í útsendingu Sjónvarpsins eftir leikinn á móti Spánverjum í kvöld.

„Við getum gert betur þótt að það sé mjög erfitt að spila við lið eins og Spán. Við erum með hörkulið og vitum það líka sjálfir. Þegar við erum klárir þá erum við með ansi gott lið en það er erfitt að taka einhverja jákvæða punkta út úr þessum leik þegar maður er svona svekktur eins og núna," sagði Björgvin Páll.

„Það er ömurlegt að tapa svona leik sérstaklega þegar við vorum svo nálægt því að vinna þá. Við hefðum getað verið með miklu betri stöðu í hálfleik og þá hefðum við sett miklu meiri pressu á þá," sagði Björgvin Páll.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×