Sport

146 met bætt á síðasta ári

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hafdís Sigurðardóttir bætti þrjú Íslandsmet á síðasta ári.
Hafdís Sigurðardóttir bætti þrjú Íslandsmet á síðasta ári. Mynd/Vilhelm
Alls voru 146 frjálsíþróttamet bætt í öllum aldursflokkum á síðasta ári eftir því sem fram kemur í útttekt Friðriks Þórs Óskarssonar hjá afrekaskráanefnd FRÍ.

Konur settu alls 92 ný met en 54 litu dagsins ljós í karlaflokki. Flest voru metin bætt í aldursflokki 16-17 ára.

Hafdís Sigurðardóttir og Aníta Hinriksdóttir bættu flest met í flokki fullorðinna eða þrjú hvort. Hafdís setti met í langstökki sem og í 60 og 300 m hlaupum.

Aníta bætti metin í 800 m hlaupum innan- og utanhúss sem og í 1500 m hlaupi innanhúss, auk þess að bæta beta met í þremur aldursflokkum sem og með boðhlaupssveit ÍR. Met Anítu urðu á endanum 28 talsins í öllum aldursflokkum.

Þórdís Eva Steinsdóttir, hlaupari úr FH, átti þó þátt í fleiri metum á síðasta ári eða 31 talsins. Hilmar Örn Jónsson, kastari úr ÍR, átti einnig ótrúlegt ár og bætti samtals 24 met.

Alls settu 30 einstaklingar og boðhlaupssveitir ný met á árinu úr alls tíu félögum. ÍR-ingar áttu flest met eða 71 talsins. FH-ingar komu næstur með 39 met og Akureyringar áttu 21.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×