Skoðun

Kjarasamningur framhaldsskólakennara

Guðríður Arnardóttir skrifar
Í Fréttablaðinu í gær er nýgerður kjarasamningur Félags framhaldsskólakennara við íslenska ríkið gagnrýndur.

Það er ekkert óeðlilegt að framhaldsskólakennarar séu óöruggir um stöðu sína þegar nýr kjarasamningur felur í sér endurskilgreiningu á vinnumati kennara. Verkefni næstu mánaða verður að þróa slíkt mat og framhaldsskólakennarar fá að taka afstöðu til þess sérstaklega þegar það hefur verið mótað og liggur fyrir, í síðasta lagi í febrúar á næsta ári.

Framhaldsskólakennarar geta ekki staðið í vegi fyrir framgangi landslaga. Það er einfaldlega staðreynd að lög um framhaldsskóla voru sett á Alþingi árið 2008 og munu taka gildi á næsta ári. Verkefni samningafólks okkar í þessari lotu var m.a. að aðlaga kjarasamning okkar að þeim lögum.

Spennandi tækifæri

Það tókst og teljum við niðurstöðuna góða, menn hafa nefnt tímamótasamning, ekki síst vegna þeirra leiðréttinga sem hann felur í sér á launum kennara.

Nýr kjarasamningur framhaldsskólakennara er spennandi tækifæri inn í framtíðina. Þar hafa engin réttindi verið „seld“ og hann mun ekki fela í sér aukið vinnuálag fyrir hærri laun.

Í samningnum er verið að færa laun framhaldsskólakennara til betra horfs og talsverðar leiðréttingar felast í þeim samningi nái hann fram að ganga út samningstímabilið.

Dregur úr launabili

Ég hvet alla framhaldsskólakennara til að mæta á kynningarfundi um samninginn. Í dag (9. apríl) er fundur í Flensborg kl. 16.30 og á morgun í Fjölbrautaskólanum á Selfossi og Fjölbrautaskólanum á Akranesi á sama tíma. Fyrir þá sem eiga ekki heimangengt í dag verður fundurinn sendur út með fjarfundarbúnaði. Þar munum við fara yfir innihald samningsins og svara spurningum.

Það er ástæða til þess að óska okkur öllum til hamingju með nýjan kjarasamning framhaldsskólakennara. Góð niðurstaða samninga hlýtur að fela í sér sátt beggja aðila. Um slíkt er að ræða í þessu tilfelli og það er gott. Það besta við nýjan kjarasamning er að hann felur í sér talsverðar launaleiðréttingar á kjörum kennara og dregur úr launabili okkar og viðmiðunarstétta. Það er það sem að var stefnt.




Skoðun

Sjá meira


×