Körfubolti

KR-ingar endurheimta sína stráka í körfunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij skrifaði í fyrradag undir tveggja ára samning við KR og mun spila með liðinu í Dominos-deildinni. Þetta er gríðarlegur liðsstyrkur en Pavel var kosinn besti leikmaður deildarinnar þegar hann lék síðast með liðinu veturinn 2010 til 2011.

Það er ljóst að KR-ingar verða ekki árennilegir með Pavel í fararbroddi. Það vekur athygli að þótt Pavel sé ekki uppalinn í Vesturbænum er hann enn einn leikmaðurinn sem kemur aftur í KR eftir að hafa spilað annars staðar síðustu ár.

Í fyrra sneru aftur þeir Helgi Már Magnússon og Brynjar Þór Björnsson en í sumar voru þrír uppaldir KR-ingar komnir heim áður en Pavel ákvað að semja við KR. Þetta eru þeir Magni Hafsteinsson, Darri Hilmarsson og Matthías Orri Sigurðarson.

Sá síðastnefndi er yngri bróðir landsliðsbakvarðarins Jakobs Sigurðarsonar og var búinn að vera í skóla í Bandaríkjunum.

Magni er kominn aftur í KR eftir níu ára fjarveru og Darri er búinn að vera í burtu í þrjú tímabil. Allir hafa þessir strákar unnið Íslandsmeistaratitilinn með félaginu og einhver þeirra hefur tekið þátt í að vinna alla stóra titla KR-liðsins á þessari öld (2000, 2007, 2009 og 2011).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×