Skoðun

Stærsti sjúklingahópurinn á Íslandi

Mikael Torfason skrifar
Algengt verð á sígarettupakka er um tólf hundruð krónur. Í honum eru 20 sígarettur en það er sá skammtur sem meðalreykingamanneskja er talin þurfa yfir daginn. Kostnaður á ári er því yfir 400 þúsund krónur og fer hækkandi.

Í Fréttablaðinu í dag segjum við frá þeim gleðitíðindum að sala á sígarettum hefur dregist saman um tíu prósent en um síðustu áramót var sérstakt tóbaksgjald hækkað um 17 prósent. Sérfræðingar í fíknisjúkdómum hafa lengi bent á að verðhækkanir dragi úr neyslu á fíkniefnum á borð við tóbak og áfengi. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin tekur undir þetta og segir verðhækkanir á tóbaki til þess fallnar að minnka neysluna.

Við vitum öll að sígarettufíkn er alvarlegur sjúkdómur sem kemur milljónum manna í gröfina ár hvert. Fimmtán prósent Íslendinga reykja sígarettur en reykingar eru sagðar drepa annan hvern sem reykir. Á Íslandi er bannað að reykja á flestum stöðum innandyra og aldurstakmark til kaupa tóbak er átján ára.

Flestir sem reykja eiga mjög erfitt með að hætta að reykja. Talið er að fjórir af hverjum fimm sem reyna að hætta mistakist. Þeir, sem hafa getað hætt, þurfa oft að sætta sig við að vera háðir nikótíntyggjói, plástrum eða slíkum nikótíngjöfum. Sem er mun skárra því nikótínfíknin sem slík er auðvitað ekki nálægt því eins hættuleg og reykingar. En hún getur verið kostnaðarsöm því hinar svokölluðu nikótínvörur eru oft dýrar.

Fyrir nokkrum árum var það reiknað út að sígarettupakkinn þyrfti að kosta þrjú þúsund krónur ef reykingafólk ætti sjálft að bera þann kostnað sem fellur á samfélagið allt vegna reykinga. Það er ágætis sjónarmið út af fyrir sig en vænlegast er að horfa fyrst og síðast á reykingar sem alvarlegan fíknisjúkdóm sem hægt er að meðhöndla. Nikótínfíkn er nátengd öðrum fíknisjúkómum. Gott dæmi um það er að níu af hverjum tíu sem koma á Vog í meðferð vegna vímuefnafíknar hafa reykt eða reykja.

Lengi dó að lágmarki einn Íslendingur á dag vegna reykinga. Blessunarlega hefur það hlutfall minnkað mjög enda reyktu helmingi fleiri hér á landi fyrir tuttugu árum en í dag. Mikill árangur hefur náðst með forvörnum, aukinni meðvitund og hækkandi verði á sígarettum. Enn búum við samt við það að yfir hundrað Íslendingar greinast árlega með krabbamein sem rekja má beint til reykinga. Flestir greinast með lungnakrabbamein en það er lengi að þróast og veldur litlum einkennum þannig að greiningin kemur oft allt of seint.

Við getum gert miklu betur í baráttunni gegn sígarettufíkn. Okkur er óhætt að hækka verð á tóbaki enn frekar, en við verðum um leið að gera okkur grein fyrir að um sjúkdóm er að ræða. Sjúklingarnir eru margir eða 36 þúsund talsins hér á landi. Það er án efa einn stærsti sjúklingahópurinn á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×