Skoðun

141. mánuður loftárása

Stefán Pálsson skrifar

Forsætisráðherra Íslands skrifar grein í Morgunblaðið þriðjudaginn 25. júní með yfirskriftinni „Fyrsti mánuður loftárása“. Þar kvartar hann undan skömmum sem stjórnarandstæðingar hafa látið dynja á honum fyrstu vikurnar í embætti. Gagnrýninni líkir ráðherrann við loftárásir, þar sem andstæðingarnir láti sprengjum rigna úr lofti.



Líkingamál forsætisráðherra skapar hugrenningatengsl við aðrar loftárásir og öllu áþreifanlegri. Í Afganistan hafa Nató-þjóðir látið sprengjum rigna úr háloftunum, ekki í einn mánuð heldur hundrað fjörutíu og einn. Stríðið endalausa í einu fátækasta landi jarðar hefur nú staðið lengur en heimsstyrjaldirnar tvær samanlagt. Flestir hafa gleymt hinum upprunalega tilgangi þessa stríðs, enda hafa vestrænir ráðamenn ítrekað endurskilgreint markmiðin eftir því sem átökin hafa dregist á langinn.



Í hverri viku berast fregnir af hörmulegum afleiðingum hernaðarins, þar sem fjarstýrðum árásarvélum er beitt til að tryggja að sem fæstir Nató-hermenn falli. Minna fer fyrir slíkri umhyggju fyrir lífi og limum afganskra borgara.



Íslensk stjórnvöld hafa lítt skipt sér af þessu stríði, sem þó er háð í okkar nafni og með okkar stuðningi. Ólíklegt má teljast að það breytist með nýjum utanríkisráðherra, sem segist vilja taka virkari þátt í starfsemi og umsvifum Nató. En hver veit nema nýtilkomin andúð framsóknarmanna á loftárásum muni koma fram í utanríkisstefnunni?




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×