Körfubolti

Grindavík, KR og Valur áfram í bikarnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr viðureign Vals og Grindavíkur á dögunum.
Úr viðureign Vals og Grindavíkur á dögunum. Mynd/Valli
Valskonur unnu úrvalsdeildarslaginn gegn Hamar í 16-liða úrslitum Powerade-bikars kvenna í körfubolta í dag 66-61. Grindavík lagði b-deildarlið Stjörnunnar 60-83.

Leikurinn í Vodafone-höllinni var afar kaflaskiptur. Valskonur leiddu að loknum fyrsta leikhluta 22-14 en gestirnir sneru leiknum sér í vil og leiddu í hálfleik 31-30. Í þriðja leikhluta sigu heimastúlkur fram úr og höfðu átta stiga forskot fyrir lokafjórðunginn.

Þær rauðklæddu sigldu sigrinum í hús í fjórða leikhluta með Jaleesu Butler í broddi fylkingar og unnu fimm stiga sigur. Butler skoraði 10 stig en tók heil 15 fráköst auk þess að gefa níu stoðsendingar. Guðbjörg Sverrisdóttir var stigahæst með 16 stig.

Hjá Hvergerðingum átti Di'Amber Johnson frábæran leik. Sú bandaríska skoraði 32 stig og tók tíu fráköst. Glímudrottningin Marín Laufey Davíðsdóttir tók 11 fráköst auk þess að skora tíu stig.

Grindvíkingar tóku völdin í sínar hendur í öðrum leikhluta gegn Stjörnunni í Garðabæ. Eftir jafnan fyrsta leikhluta lokuðu Grindvíkingar á Garðbæinga sem skoruðu aðeins sjö stig allan fjórðunginn. Staðan í hálfleik 40-24.

Enn bættu Grindvíkingar við forskotið í þriðja leikhluta en heimakonur löguðu stöðuna í þeim fjórða. Sigurinn var þó aldrei í hættu hjá þeim gulklæddu.

Lauren Oosdyke skoraði 24 stig auk þess að taka 15 fráköst hjá Grindvíkingum. Ingibjörg Jakobsdóttir skoraði 17 stig. Hjá heimakonum skoraði Bryndís Hanna Hreinsdóttir 18 stig og Eva María Emilsdóttir 16 stig.

Norðan heiða vann úrvalsdeildarlið KR öruggan sigur á b-deildarliði Þórs 99-39. Ebone Henry skoraði 32 stig fyrir KR-inga og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 23 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×