Jökull Júlíusson er söngvari og annar gítarleikari hljómsveitarinnar Kaleo sem hefur vakið gríðarlega athygli það sem af er ári. Jökull mætti í Hver er í miðdegisþættinum Ómar á X-977.
Kaleo voru að senda frá sér sína fyrstu plötu samnefnda sveitina og segir Jökull það vera gríðargóða tilfinningu að fá loks eintak í hendurnar. Árið hefur verið mikil rússibanareið fyrir Kaleo eftir að útgáfa þeirra af Vor í Vaglaskógi sló í gegn.
Fyrsta platan sem að Jökull eignaðist? Jökull man ekki eftir einni ákveðinni plötu en pabbi hans var duglegur að gefa honum geisladiska og hlusta með honum á vínilplötur eins og t,d The Beatles, Hendrix og Santana. Íslensk tónlist var mikið leikin á æskuheimili Jökuls og stendur hljómsveitin Dátar uppúr í minningunni.
Fyrstu tónleikarnir? Móðir Jökuls tók hann með á Bubbatónleika í æsku og einnig minnist hann þess að hafa ungur farið á tónleika með Herði Torfa. Þeir tónleikar sem standa þó uppúr eru tónleikar Roger Waters í Egilshöll árið 2006.
Uppáhaldslagið? Jökull hefur átt nokkur uppáhaldslög í gegnum tíðina. Since I´ve Been Loving You með Led Zeppelin er ofarlega á lista.
Uppáhaldstexti? Jökull semur flestalla texta Kaleo og spáir þar af leiðandi mikið í textagerð. Bob Dylan er nefndur sem áhrifavaldur og gömul og góð íslensk lög hafa frábæra texta segir Jökull.
Hvað fílar Jökull í dag? Hann segist hlusta mikið á Queens Of The Stone Age og nýja platan þeirra, Like Clockwork er í miklu uppáhaldi. The Black Keys og Jack White eru sömuleiðis í uppáhaldi hjá söngvaranum.
Átrúnaðagoð Jökuls? Í tónlistinni eru það Jim Morrison og Jimi Hendrix segir Jökull sem segist líklega vera fæddur á vitlausum áratug.
Hér fyrir neðan má sjá Kaleo flytja lagið Vor í Vaglaskógi.
Harmageddon